Kynvitund
Gender identity

Kynvitund segir til um hvernig fólk vill lifa og vera í sínu kyni. Kynvitund vísar ekki til kynfæra, líffræði eða útlits heldur upplifunar fólks af eigin kyni. Allir hafa kynvitund því allir upplifa kyn sitt á einhvern hátt.

Fæstir þurfa nokkru sinni að hugsa út í kynvitund sína því hún samræmist því kyni sem þeim var úthlutað við fæðingu. Flestir eru sem sagt sískynja og hafa aldrei þurft að efast um að það kyn sem ljósmóðirin tilkynnti þegar þeir fæddust sé þeirra rétta kyn. Aðrir efast eða eru fullvissir um að það kyn sem ljósmóðirin gaf upp sé ekki þeirra rétta kyn og eru því trans.

Kynvitund getur verið margs konar. Sumt fólk upplifir sig sem karla, aðrir sem konur og sumir upplifa sig sem blöndu af hvoru tveggja og eru þá kynsegin. Enn aðrir upplifa sig hvorki sem konu né karl. Sumir fara í aðgerðir eða taka inn hormóna til að breyta líkama sínum og útliti og samræma það þannig við kynvitund sína. Það er kallað að fara í kynleiðréttingu. Sumir vilja ekki fara í slíkar aðgerðir.

Að vera sís/sískynja
Cis-gender

Sís er lýsingarorð og forskeyti sem er notað um fólk sem upplifir sig á þann hátt að það tilheyri því kyni sem því var úthlutað við fæðingu. Sís kona er til dæmis kona sem var úthlutað kyninu „stelpa“ við fæðingu og er sátt við það. Orðinu er oft stillt upp sem andheiti við orðið trans.

Orðið er sambærilegt við orðið gagnkynhneigð að því leyti að það á við um meirihlutann. Bæði orðin urðu til eftir að hinsegin fólk, í þessu tilfelli trans fólk, bjó til orð til að lýsa sínum veruleika. Þá varð einnig til þörf til að lýsa þeim sem ekki búa við þennan veruleika; að lýsa meirihlutanum og norminu.

Að vera trans
Transgender

Trans er regnhlífarheiti yfir fólk sem er með kynvitund sem samræmist ekki því kyni sem því var úthlutað við fæðingu. Þegar við fæðumst er í langflestum tilfellum tilkynnt um kyn okkar, hér er fæddur lítill drengur eða lítil stúlka. Fólk sem hefur aldrei þurft að efast um að þessi tilkynningin hafi verið rétt er sískynja. Þetta á við um velflesta.

Trans fólk, aftur á móti, hefur á einhverjum tímapunkti efast um að það kyn sem tilkynnt var um við fæðingu sé rétt og passi. Athugið að hér er ekki átt við líffræðileg kyneinkenni fólks heldur upplifun fólks af kyni sínu. 

Undir trans regnhlífina falla trans karlar og trans konur, fólk sem fer í leiðréttingaraðgerðir, fólk sem fer ekki í aðgerðir og kynsegin fólk. Trans er á íslensku notað sem lýsingarorð eitt og sér (sbr. að vera trans) eða með öðrum orðum (sbr. hún er trans kona).

Trans? Karl eða kona?

Margt fólk ruglar saman orðunum trans karl og trans kona. Góð þumalputtaregla til að muna merkingu hvors orðs er að alltaf er talað um fólk í því kyni sem það er í dag. Þannig er trans karl til dæmis manneskja sem í æsku (eða lengur) var álitin stelpa/kona af samfélaginu en lifir í dag sem karl.

Sumt trans fólk kýs að nota orðið trans um sjálft sig og segist til að mynda vera trans kona. Annað trans fólk notar það hugtak lítið eða alls ekki um sjálft sig. Þar geta legið ólíkar ástæður að baki. Margt trans fólk upplifir það sem mótandi þátt fyrir sjálfsmynd sína að hafa farið í gegnum kynleiðréttingarferli eða verið álitið af öðru kyni í æsku. Þannig finnst því mikilvægt að nota orðið trans um sjálft sig til að leggja áherslu á hversu stór og mótandi þáttur það að vera trans er. Annað trans fólk upplifir þetta á ólíkan hátt og finnst það að vera trans ekki miðlægur þáttur í þeirra sjálfsmynd. Þeim finnst mikilvægara að vera kona, karl eða manneskja (fremur en trans kona, trans karl eða trans manneskja) og vilja stundum síður að annað fólk viti að það sé trans. Mikilvægt er að virða val hvers og eins í þessum efnum.

Tengist ekki kynhneigð

Það að vera trans vísar til kynvitundar en ekki kynhneigðar. Trans fólk getur haft hvaða kynhneigð sem er. Áður fyrr var það talið merki um að fólk væri raunverulega trans ef það reyndist gagnkynhneigt eftir að hafa farið í gegnum kynleiðréttingu. Í dag hefur þekkingu okkar fleygt fram og gagnkynhneigð er af læknum ekki álitin eftirsóknarverðari eftir kynleiðréttingu en hvaða önnur kynhneigð sem er.

Trans börn

Vegna þess hve mjög umræðan um trans málefni hefur opnast er trans fólk sífellt yngra þegar það getur tjáð sig um kynvitund sína. Á Íslandi eru í dag fjölmörg dæmi um börn á grunnskólaaldri og jafnvel á leikskólaaldri sem eru trans og lifa í samræmi við það kyn sem þau upplifa að passi þeim best.

Trans og heilbrigðiskerfið

Í heilbrigðiskerfinu er trans fólk sagt vera með kynáttunarvanda sem er skilgreindur geðsjúkdómur hérlendis. Það hugtak er almennt ekki notað af trans fólki enda gefur það til kynna að um sjúkleika sé að ræða. Íslenskt lagaumhverfi gerir ráð fyrir að fólk þurfi að vera með skilgreindan sjúkdóm til að fá aðgengi að heilbrigðiskerfinu. Því heldur heilbrigðiskerfið sig við að skilgreina trans fólk með kynáttunarvanda svo að það hafi aðgang að niðurgreiddum aðgerðum og hormónum ef teymi heilbrigðisstarfsfólks metur það nauðsynlegt.

Að leiðrétta kyn sitt
Gender reassignment

Kynleiðrétting er ferli sem sumt trans fólk fer í gegnum til að leiðrétta kyn sitt. Það getur til að mynda falið í sér hormónainntöku, brjóstnám og/eða aðgerðir á kynfærum. Kynleiðrétting vísar ekki eingöngu til skurðaðgerða á kynfærum þó að slík aðferð geti verið einn þáttur kynleiðréttingarferlis.

Ekki nauðsynlegt að fara í aðgerðir til að vera trans

Sumt trans fólk kýs að fara eingöngu á hormóna en sleppir öllum aðgerðum. Aðrir fara í aðgerðir eins og brjóstnám en sleppa öðrum þáttum kynleiðréttingar. Val hvers og eins einstaklings er mjög persónuleg ákvörðun og að baki þess geta legið margvíslegar ástæður. Hérlendis er ekki skylda að fara í nokkurs konar aðgerðir eða taka inn hormón til að fá leiðréttingu á kyni sínu í þjóðskrá. Þó þarf fólk að hafa lifað í því kynhlutverki sem það kýs sér í ákveðinn tíma áður en slík leiðrétting fer fram. Fólk getur verið trans hvort sem það kýs að fara í kynleiðréttingarferli eða ekki.

Kynsegin / trans fólk utan kynjatvíhyggju
Genderqueer

ynsegin er hugtak sem nær yfir fólk sem skilgreinir kyn sitt utan tvíhyggju kynjakerfisins (og er því einnig trans). Sumt kynsegin fólk er t.d. karlkyns og kvenkyns, annað hvorki karlkyns né kvenkyns eða skilgreinir ekki kyn sitt. Kynsegin er því í raun regnhlífarhugtak undir regnhlífarhugtakinu trans.

Athugið að hér er ekki verið að vísa til líffræðilegra kyneinkenna fólks heldur kynvitundar, þ.e.a.s. upplifunar fólks af kyni sínu

Sumt kynsegin fólk kýs að notuð séu kynhlutlaus persónufornöfn á borð við hán í staðinn fyrir hann eða hún þegar rætt er um það. Annað kynsegin fólk notar hann eða hún; það er persónulegt val hvers og eins. Hið sama má segja um beygingar lýsingarorða; sumt kynsegin fólk kýs að notað sé hvorugkyn (til dæmis: ég er svangt) en annað kynsegin fólk notar kvenkyn eða karlkyn. Engin ein leið er rétt í þessum efnum og mikilvægt er að virða val hvers og eins.

Hán – hé – hín
They, them, their, theirs

Sumt kynsegin fólk kýs að nota kynhlutlaus persónufornöfn. Íslensk persónufornöfn sem notuð eru um fólk vísa alltaf til karlkyns (hann) eða kvenkyns (hún). Að auki er til hvorugkynspersónufornafnið það sem er almennt ekki notað um manneskjur. Nýlega hafa fornöfnin hán og hín rutt sér til rúms hérlendis. Þau eru einkum notuð af kynsegin fólki. Orðin taka oftast með sér hvorugkyn (þótt það geti verið misjafnt hvað fólk kýs í þeim efnum). Umræður gætu þá hljómað svo:

Hán er svangt

Ég fékk lánaða bókina háns

Hé er lögfræðingur, ég hef góða reynslu af þjónustu hés

Hín er svo góðhjartað að lána mér teppið sitt

Mjög mikilvægt er að virða val hvers og eins á persónufornafni. Víða innan hinsegin samfélaga tíðkast að fara svokallaðan nafna- og fornafnahring þegar hópur fólks hittist í fyrsta sinn. Þá segir fólk hvað það heitir og hvaða fornafn það kýs að fólk noti um sig, til dæmis: Ég heiti Sigurður og nota fornafnið hann.

Hán yfir ókyngreinda manneskju

Eins og segir hér að ofan kýs sumt fólk að nota ókyngreind persónufornöfn og er þá oftast um kynsegin manneskju að ræða. Hins vegar er önnur notkun orðsins einnig möguleg og að ryðja sér til rúms. Hán er nefnilega líka hægt að nota um manneskju sem við þekkjum ekki og vitum ekki af hvaða kyni er. Til dæmis:

Helena: Ég og maki minn fórum á æskuslóðir mínar í sumarfríinu.
Hannes: Hvernig líkaði háni?

Í dæminu notar Hannes hán af því að Hannes veit ekki af hvaða kyni maki Helenu er. Annað dæmi um slíka notkun á orðinu hán má sjá í þessum pistli þar sem rætt er um ótilgreinda manneskju.

Hvort sem um er að ræða manneskju sem kýs ókyngreint persónufornafn eða notkun á fornafninu hán um manneskju sem við þekkjum ekki finnst flestum skrýtið að tala um fólk í hvorugkyni til að byrja með. Góð leið til að æfa sig á því er að hugsa um orðið skáld. Skáld er hvorugkyns orð og á við um manneskju. Við segjum óhikað að skáldið sé fallegt, gott, svangt eða góðhjartað. Í þessum málum og öðrum gildir að æfingin skapar meistarann.

Kyntjáning
Gender expression

Kyntjáning segir til um hvernig fólk tjáir kynvitund sína dagsdaglega, til að mynda með klæðavali og líkamstjáningu. Kyntjáning er hluti af lífi allra; sumir tjá kyn sitt á óhefðbundinn hátt, eru kannski með skegg og á háum hælum, á meðan kyntjáning annarra fellur betur að norminu.

Hvað er að vera „butch“?
Butch, Masculine of Center (MOC), stud

Orðið er oftast notað um hinsegin konur sem samfélagið lítur á sem karlmannlegar, til dæmis í klæðaburði og vali á áhugamálum.

Butch er stundum notað á niðrandi hátt og er þá kannski sambærilegt við íslensku orðin trukkalessa eða trukkur, sem einnig eru niðrandi orð um „karlmannlegar“ lesbíur. Í öðrum tilfellum er orðið notað af lesbíum eða öðrum hinsegin konum sem skilgreina sig sem butch og er þá ekki niðrandi.

Hvað er að vera „femme“?
Femme

Orðið er notað um hinsegin fólk sem annaðhvort klæðir sig og hagar sér kvenlega“ eða samfélagið lítur á sem kvenlegt, til dæmis í klæðaburði og vali á áhugamálum. Sé um lesbíur að ræða er gjarnan talað um „lipstick lesbians“ á ensku.

Drag
Drag

Drag er það kallað þegar fólk klæðist fötum og sýnir látbragð sem talið er tengjast „gagnstæðu kyni“ á einhvers konar sýningu eða gjörningi. Þá er yfirleitt talað um dragkónga og dragdrottningar. Aftur á móti er talað um klæðskipti þegar fólk kýs sjálft að fara í föt sem talin eru tengjast „gagnstæðu kyni“ án þess að það sé hluti af sérstökum listgjörningi eða leikhúsi. Þá má nefna að sem listform hefur drag tengst hinsegin samfélaginu náið síðastliðna öld eða svo, enda eru dragdrottningar og -kóngar gjarnan hinsegin.

Dragkóngar og -drottningar

Dragkóngar eru yfirleitt konur eða kynsegin fólk sem leikur karlkyns persónur, þ.e. klæðir sig upp og hegðar sér á ákveðinn hátt sem telst karlmannlegur. Á sama veg eru dragdrottningar yfirleitt karlar eða kynsegin fólk sem leikur kvenkyns persónur, þ.e. klæðir sig upp og hegðar sér á ákveðinn hátt sem telst kvenlegur. Þó hafa hvorki drag né klæðskipti, eins og við þekkjum þessi tjáningarform á Vesturlöndum í dag, neitt að segja um kynhneigð eða kynvitund fólks.

Drag í sögunni

Leiða má líkur að því að fólk hafi klætt sig upp eða komið fram í gervi fólks af öðru kyni alveg síðan það fór að tíðkast að konur og karlar klæddust á ólíkan hátt. Heimildir eru til dæmis um þess konar gjörninga frá Grikklandi hinu forna, úr klassísku kínversku leikhúsi og frá tímum Shakespeares og Elísabetar I Englandsdrottningar. Víða í heiminum var konum einmitt óheimilt að leika á sviði og því fóru karlar með öll hlutverkin, jafnt karl- sem kvenhlutverk. Einnig virðist um þvermenningarlega iðju að ræða þar sem heimildir finnast um klæðskipti og „drag“ meðal indíanaþjóða Norður-Ameríku og fleiri frumbyggjaþjóða.

Þó er oft erfitt að greina á milli klæðskiptinga, dragkónga eða -drottninga og trans fólks í samfélögum utan Vesturlanda samtímans, því þessar sjálfsmyndir og hugtök eru ekki skilgreind með sama hætti alls staðar eða á öllum tímaskeiðum. Við verðum því að fara varlega í því að yfirfæra þessi hugtök á fortíðina og önnur menningarsamfélög.

Dragdrottningar, dragkóngar og klæðskiptingar hafa, ásamt trans konum, verið leiðandi afl í réttindabaráttu hinsegin fólks, svo sem í mótmælum eins og hinum þekktu Stonewall-uppþotum, og eru fastur liður í pride-göngum um allan heim.

Klæðskipti
Crossdressing

Með klæðskiptum er yfirleitt átt við að fólk klæðist fötum sem almennt eru talin tilheyra gagnstæðu kyni, til dæmis karlmaður sem er í fötum sem okkar menning álítur kvenföt. Ekki er átt við þau tilfelli þar sem fólk klæðist slíkum fötum í leiksýningu eða listgjörningi; það er nefnt drag.

Mikilvægt er að gera greinarmun á trans fólki og fólki sem stundar klæðskipti en orðið klæðskiptingur hefur stundum verið notað á niðrandi hátt yfir trans fólk.

Klæðskipti segja hvorki til um kynvitund né kynhneigð fólks.

Upplýsingar af vefsíðunni https://otila.is/