Hvað er gagnkynhneigð?
Heterosexuality

Það að laðast að því kyni sem menningin okkar skilgreinir sem „gagnstætt“ þínu eigin kyni. Karl sem laðast einkum að konum eða kona sem laðast einkum að körlum. Takið eftir að orðið er litað af kynjatvíhyggju, það liggur í orðsins hljóðan að kynin séu tvö og þau séu gagnstæð hvort öðru.

Hvað er karlkynhneigð?
Androsexuality

Karlkynhneigð er notað yfir það að hrífast einkum að körlum eða fólki sem samfélagið álítur karlmannlegt. Konur sem hrífast af körlum eru því karlkynhneigðar, þó mun algengara sé að þær séu sagðar gagnkynhneigðar. Karlar og kynsegin fólk sem hrífst af körlum eða „karlmannlegum“ eiginleikum er líka karlkynhneigt. Þetta orð felur ekki í sér þá ályktun að kynin séu tvö og gagnstæð og hampar því ekki kynjatvíhyggjunni á sama hátt og orðið gagnkynhneigð gerir.

Hvað er kvenkynhneigð?
Gynosexuality

Kvenkynhneigð manneskja laðast einkum að konum eða fólki sem samfélagið álítur kvenlegt. Karlar sem oftast eru nefndir gagnkynhneigðir eru því í raun líka kvenkynhneigðir. Það sama gildir um lesbíur og kynsegin fólk sem hrífst af konum eða „kvenlegu“ fólki. Þetta orð felur ekki í sér þá ályktun að kynin séu tvö og gagnstæð á sama hátt orðið gagnkynhneigð gerir.

Hvað er samkynhneigð?
Homosexuality

Manneskja sem laðast að fólki sem er af sama kyni og hún sjálf tilheyrir. Hommi er samkynhneigður karlmaður og lesbía er samkynhneigð kona. 

Hvað er tvíkynhneigð?
Bisexuality

Að laðast að tveimur kynjum. Hugtakið á oftast við um fólk sem laðast að konum og körlum en getur einnig átt við um til dæmis karla sem laðast bæði að konum og trans fólki utan kynjatvíhyggjunnar. Algengur misskilningur varðandi tvíkynhneigð er að tvíkynhneigt fólk hrífist nákvæmlega jafn mikið af konum og körlum. Vissulega getur það verið raunin en margt tvíkynhneigt fólk hrífst oftar, og jafnvel aðallega, að annaðhvort konum eða körlum en er samt tvíkynhneigt.

Hvað er pankynhneigð?
Pansexuality

Pankynhneigð manneskja hrífst af fólki af öllum kynjum, konum, körlum og fólki af öðrum kynjum. Það þýðir þó ekki endilega að pankynhneigðir hrífist jafn mikið af öllu fólki. Pankynhneigt fólk getur haft sterkari tilhneigingu til að hrífast af fólki af tilteknu kyni fremur en öðru. Sumir kjósa að skilgreina pankynhneigð sem svo að fólk hrífist af persónuleika fólks óháð kyni. Til marks um það er pankynhneigð stundum kölluð persónuhrifning. Aðrir tengja ekki við þá skilgreiningu og segja kynið vissulega skipta sig máli þótt þeir hafi þann hæfileika að geta hrifist af öllum kynjum.

Hvað er fjölkynhneigð?
Polisexuality

Hugtakið fjölkynhneigð hefur tvenns konar merkingu. Annars vegar merkir það að laðast að fólki af fleiri en tveimur kynjum en þó ekki fólki af öllum kynjum eins og pankynhneigt fólk gerir. Hins vegar er það notað sem regnhlífarhugtak yfir þær hneigðir sem vísa til þess að fólk hrífist af manneskjum af fleiri en einu kyni. Tvíkynhneigð er þannig dæmi um fjölkynhneigð.

Hvað er einkynhneigð?
Monosexuality

Regnhlífarhugtak yfir þær hneigðir sem vísa til þess að fólk hrífist aðeins af manneskjum af einu tilteknu kyniGagnkynhneigð er dæmi um einkynhneigð.

Hvað er kynseginhneigð?
Ceterosexuality eða skoliosexuality

Að hrífast einkum af kynsegin fólki.  

Hvað er eikynhneigð?
Asexuality eða ace

Hugtakið vísar til þess að laðast aldrei eða nær aldrei kynferðislega að öðru fólki. Sumt eikynhneigt fólk hefur kynhvöt en hefur ekki áhuga á að fullnægja henni með öðru fólki. Annað eikynhneigt fólk hefur litla eða enga kynhvöt. Sumt eikynhneigt fólk hefur eingöngu áhuga á rómantískum samböndum og/eða ókynferðislegri snertingu (til dæmis faðmlögum og kúri) með öðru fólki. Fólk sem hefur ekki áhuga á rómantískum samböndum telst eirómantískt.

Hvað er Grá kynhneigð?
Graysexual, gray asexual, grace, gray ace eða gray-a

Grá eikynhneigð vísar til þess að kynferðisleg aðlöðun sé róf fremur en tveir aðskildir flokkar. Þannig flokkast fólk ekki eingöngu í flokkana tvo eikynhneigðir og svo allir hinir sem hafa áhuga á kynlífi heldur er um að ræða róf þar sem fólk getur upplifað meiri eða minni aðlöðun að öðru fólki kynferðislega. Grá eikynhneigt fólk staðsetur sig nálægt eikynhneigð á þessu rófi og finnur því til lítillar kynferðislegrar aðlöðunar. Sumt grá einkynhneigt fólk kallar sig þó eikynhneigt dags daglega enda má segja að grá eikynhneigð sé undirflokkur eikynhneigðar.

Munurinn á grá eikynhneigðum og eikynhneigðum manneskjum er sá að þau sem eru eikynhneigð upplifa almennt enga kynferðislega aðlöðun eða þörf til að svala henni. Þau sem eru grá eikynhneigð finna fyrir kynferðislegri aðlöðun en hún er það lítil að þau finna sig ekki innan annarra kynhneigða á borð við gagnkynhneigð eða samkynhneigð. Eða þá að þau finna fyrir kynferðislegri aðlöðun og hafa þörf fyrir að svala henni en eingöngu undir mjög sértækum kringumstæðum. Sumt grá eikynhneigt fólk upplifir til dæmis eingöngu kynferðislega löngun til fólks sem það hefur djúpstæða tilfinningalega tengingu við (það kallast demisexual á ensku). Líkt og eikynhneigt fólk upplifir sumt grá eikynhneigt fólk rómantíska hrifningu.

Hvað er rómantísk hrifning?
Romantic attraction

Almennt eru orð sem lýsa kynhneigð, t.d. gagnkynhneigð, talin lýsa bæði vilja til að stunda kynlíf og áhuga á rómantískum samböndum með fólki af tilteknu kyni/kynjum. Sumt fólk vill aftur á móti greina á milli kynferðislegrar og rómantískrar hrifningar. Þetta er sérstaklega gagnlegt fyrir fólk sem skilgreinir sig sem eikynhneigt svo það geti lýst því hvort það kjósi að stofna til sambanda með öðru fólki og þá með hverjum. Kona sem er eikynhneigð og homoromantic hrífst þannig ekki kynferðislega af öðru fólki en hrífst á rómantískan hátt af konum og tekur þátt í rómantísku atferli með þeim, til dæmis leiðir þær eða er í föstu sambandi með þeim. Biromantic lýsir því að hafa áhuga á rómantísku sambandi með fólki af tveimur kynum, heteroromantic með fólki af „gagnstæðu“ kyni, homoromantic með fólki af sama kyni, panromantic með fólki af öllum kynjum. Aromantic fólk hefur ekki áhuga á rómantískum samböndum.

Hvað er sveigjanleg kynhneigð?
Heteroflexibility (sveigjanleg gagnkynhneigð) og homoflexibility (sveigjanleg samkynhneigð)

Þegar fólk skilgreinir kynhneigð sína á einn hátt en er opið fyrir annars konar kynhneigðum.

Fólk sem skilgreinir sig sem gagnkynhneigt en er opið fyrir annars konar kynhneigðum er kallað heteroflexible, eða sveigjanlega gagnkynhneigt.

Fólk sem skilgreinir sig sem samkynhneigt en er opið fyrir annars konar kynhneigðum er kallað homoflexible, eða sveigjanlega samkynhneigt.

Hvað er BDSM?
BDSM

Mörkin milli kinks* og kynhneigðar eru stundum óljós. Margt fólk sem tilheyrir BDSM-samfélögum lítur á BDSM sem sína kynhneigð á meðan aðrir líta fremur á það sem lífsstíl eða áhugamál. Skrif þrítugrar konu á bloggsíðu sinni lýsa því fyrrnefnda:

„Orðfærið í dag er að BDSM sé hneigð og partur af kynverund fólks. Rökin á bak við það eru að það gengur álíka vel að lækna fólk af BDSM hneigð eins og samkynhneigð. Ef að þú spyrð einhvern hvort að hann myndi frekar vilja missa hönd eða hætta að stunda BDSM þá fer viðkomandi e.t.v. að spá hvar höndin yrði skorin og yrði það hægri eða vinstri.“

Ýmsar skilgreiningar eru til á BDSM. Á vef félagsins BDSM á Íslandi kemur fram að BDSM standi fyrir bindingar, drottnun (og undirgefni), sadisma, masókisma, skynjun og munalosta. Þar er einnig tekið fram að hvers kyns bindi-, valda- eða munalostaleikir sem geta fallið undir BDSM þurfi að uppfylla þrjú skilyrði til að geta talist BDSM: að vera öruggir, meðvitaðir og samþykktir.

  • Öryggi: Allir BDSM leikir þurfa að vera öruggir þannig að ekki verði varanlegt eða langvarandi líkamlegt eða andlegt tjón.
  • Meðvitund: Allir þátttakendur verða að vera meðvitaðir og gera sér grein fyrir því hvað þeir eru að gera.
  • Samþykki: Allir aðilar leiksins verða að vera samþykkir því sem þar fer fram.

Upplýsingar af vefsíðunni https://otila.is/